Margir tónlistarmenn bölva iPodnum. Þeir halda því fram að hann eyðileggi fyrir sér, að nú kaupir fólk ekki lengur tónlistina sína heldur stelur henni ókeypis af netinu.
Málið er alveg öfugsnúið hjá mér. Ég hef aldrei verið með sterkann smekk á tónlist. Ég heyrði bara það sem spilað var í útvarpinu eða á MTV. Svo hlustaði ég líka reglulega á geisladiskana sem foreldrar mínir eiga. Vegna þess hve dýrir geisladiskar eru þá keypti ég aldrei svoleiðis, enda vissi ég ekkert hvað ég vildi, mér fannst óþarfi að eyða peningum í eitthvað sem mér myndi svo ekki líka við. Svo komu jólin eða afmælið mitt og þá spurðu allir mig hvaða tónlist ég fílaði og hvaða geisladisk mig langaði í. Fólki fannst ég pínu skrítin að vita það ekki. Það varð til þess að ég fékk enga tónlist í gjöf nema einu sinni og þá var það kasetta með The Boys (það hjálpaði mér þó að vita hvað ég vildi ekki hlusta á). Svo þegar ég var orðin leið á því hversu margir vildu að ég hefði einhverja skoðun á tónlistarsmekk mínum þá byrjaði ég bara að segja að ég væri "alæta" á tónlist, sem þýðir eiginlega bara að maður hefur ekki hugmynd.
iPod bjargaði mér gjörsamlega í þessum málum. Nú hala ég inn öll þau lög sem mér sýnist. Og viti menn, mörg af þeim lögum sem ég hélt að væru góð og margir tónlistarmenn sem ég hélt að væru í lagi, eru það svo ekki þegar hlustað er nógu vandlega og oft. Ég hendi þeim strax út og hala inn enn fleiri lög sem mér líst á og hef heyrt einhversstaðar. Þegar ég er búin að velja þau vandlega sem ég get engann veginn hlustað endalaust á, hendi ég þeim úr iPodnum og eftir situr eðallinn. Eftir situr tónlistarmekkurinn minn.
Nú fyrst, á 24.ári lífs míns, get ég hugsað mér að fara út í Skífuna og kaupa góða tónlist að mínu mati! Í mínu tilviki hafa tónlistarmenn bara grætt á iPodnum.