mánudagur, maí 23, 2005

ÉG MÆLI MEÐ ÞVÍ að fara á myndasíðuna hjá Tomma hennar Rúnu og skoða allar myndirnar af litla stráknum þeirra sem fæddist 20.05.2005. Flott dagsetning, á aldrei eftir að gleyma henni. Allavega, það er farið að hringla ansi hátt í u know what hjá mér.... Ótrúlega sætur strákur, sem er mjög skemmtileg blanda af bæði Rúnu og Tomma, alveg einstaklega myndarlegur:)!!!!
Við vorum einmitt að halda Saumó núna rétt áðan og reyndum að giska á hver af okkur yrði næst í barneignum....ég notaði þá vísindalegu aðferð sem kallast úllen dúllen doff og það lenti á Hlíf. Ef það vildi svo til að úllen dúllen doffið hefði rétt fyrir sér þá ætla ég alltaf að nota þá vísindalegu aðferð þegar ég þarf að ákveða eitthvað mikilvægt!
Þangað til næst............................................

mánudagur, maí 09, 2005

EKKI ERU ÞAÐ BÖRNIN!
Í útvarpsfréttunum var talað um að íslensk börn eru hlutfallslega miklu fleiri á ritalíni en börn í nágrannalöndunum. Þetta er gömul tugga, það er búið að segja þessa frétt 5 sinnum síðustu 3 árin og alltaf hækkar hlutfallið. Fyrst þegar þetta kom í fréttum heyrði maður í fólki segja
"já, þetta er foreldrunum að kenna, núna hafa þau ekki tíma til að hugsa um börnin sín!" og "það verður einhver að vera heima hjá börnunum, hvurslags ábyrgðarleysi er þetta!" svo þegar lengra leið á þá fór fólk að segja
"greyið börnin mega ekki vera svolítið ofvirk. Í dag á að troða þeim í sama kassann, þau sem eru ekki "normal" eru sett á ritalín" og
"já, þetta er allt foreldrum og kennurum að kenna sem geta ekki sýnt þolinmæði fyrir þroska barnanna".
En nú ég veit ekki, með hverri frétt um þetta hækkar hlutfallið og börnin okkar eru sett á stærri og stærri skammta, eitthvað er þetta farið að verða svolítið dularfullt. Íslensk börn fæðast ekkert öðruvísi en önnur börn í heiminum. Hinsvegar eru íslenskir foreldrar öðruvísi en aðrir foreldrar. Íslenskar mæður eru allt öðruvísi en aðrar mæður (og allt í MJÖG góðu með það:)). Hinsvegar ef við skoðum þetta aðeins betur þá ætla ég að koma með aðra gamla tuggu og það er að; Við Íslendingar erum að rembast við að vera fullkomin í alla staði. Og önnur tugga; Ekki síst við konur. VARÚÐ(þetta er bara mín upplifun á kröfum til íslenskra kvenna, ég veit ekkert um kröfur til íslenskra karlmanna tildæmis):

Ég þarf að vera í kjörþyngd. Ef ekki í kjörþyngd, þá kunna að klæða mig niður í kjörþyngd. Með hreina húð. Örlitla sólbrúnku. Ef gleraugu:þá töff gleraugu. Skemmtilega klippingu sem fer mér vel. Heilbrigt og glansandi hár. Flottann lit á hárinu sem fer vel við húðlitinn. Beinar og hvítar tennur. Ef ekki beinar, þá allavega hvítar. Plokkaðar og litaðar augabrúnir. Og allt hitt sem þarf að vaxa, plokka og raka... Lita líka augnhárin. Ef ekki, þá eiga góðann vatnsheldann maskara. Muna varaglossið. Eyrnalokka, belti, skó, tösku og úr helst í stíl. Ganga í litum sem fara mér vel. Nota krem sem henta minni húðgerð. Eiga gemsa. Og jafnvel iPod. Fartölvu. Ekki búa í foreldrahúsum. Blogga. Eiga helst líka bíl. Eiga íþróttaskó(x2), gönguskó, sumarskó(x3), djammskó(x8), vetrarskó(x3). Eiga samt einhvern pening til að geta farið að minnsta kosti á kaffihús. Helst að vera í ástarsambandi. Halda góðum kontakt við vini og vinkonur. Ekki missa samband við ættingja. Vera í nánu sambandi við foreldra og systikini. Jafnvel eiga gæludýr. Stunda einhversskonar líkamsrækt. Vera vel upplýst í fréttum og stjórnmálum. Vera bara vel upplýst yfirleitt. Verð að mennta mig. Vera í 100% skóla. Vinna 21% vaktavinnu með skóla. Stunda félagslífið í skólanum. Vera gáfuð. Fyndin. Hnyttin. Koma á óvart. Indæl. Áhugasöm um aðra og annað. Vera hress. Vera gjafmild. Þarf að vera opin og hleypa fólki inn í mitt sálarlíf. Lesa bækur. Borða hollt. Borða reglulega. Ekki borða of mikið. Ekki borða of lítið. Ekki sofa of mikið. Ekki sofa of lítið. Muna vítamínin. Passa upp á sveppasýkingarnar. Verð að geta tjáð mig óaðfinnanlega á íslensku, mjög vel á ensku og kunna að redda mér á norðurlandatungumáli. Mikill plús að kunna eitthvað töff eins og spænsku, rússnesku eða japönsku. Verð að hafa ferðast og sjá heiminn, ef ekki;þá gera það sem fyrst! Fara á tónleika. Fara í bíó. Fara á leikhús. Leigja vídeó. Vera með flotta íbúð/flott herbergi. Það má vera rusl en ekki skítugt þar. Þrífa. Kunna að þrífa. Þvo. Djamma eins oft og mögulegt er. Hef ekki tíma til að vera lasin. Þarf líka að kunna að slappa af. Og rækta sjálfa mig. Þekkja sjálfa mig.

Svo ef að barn/börn eru með í dæminu:
Já sem betur fer dettur eittthvað af allri þessari upptalingu út. En SVO MARGT SEM BÆTIST VIÐ í staðinn sem ég get því miður ekki ramsað upp því ég hef ekki reynslu af uppeldi og ætla því ekki að reyna að setja mig í þau spor.

Mín spurning er bara: HVER ER Á RITALÍNINU?